Menu-2

Rannsóknavinna í gangi

Þekkingarnetið kemur að rannsóknavinnu með ýmsum hætti: Með eigin rannsóknum, þátttöku í samstarfsverkefnum og með stuðningi við aðra rannsakendur sem starfa í Þingeyjasýslu. Sum verk á rannsóknasviði eru árstíðabundin og regluleg en önnur stök og tímabundin. Verkefnin eru eins misjöfn að umfangi og þau eru mörg.

Hvað er rannsóknasvið að gera um þessar mundir?

 • Mannfjöldaþróun í Þingeyjarsýslum árið 2016: Árleg samantekt af íbúaþróun á öllu starfssvæði Þekkingarnetsins.
 • Öldrun íbúa í Þingeyjarsýslum: Greiningarvinna fyrir Héraðsnefnd Þingeyinga á aldurssamsetningu íbúa og áætlun um hvernig þróun mun verða næstu áratugi er varðar fjölda eldri borgara.
 • BRIDGES, Nordplus verkefni: Samstarfsverkefni með aðilum frá Danmörku, Finnlandi og Rússlandi. Snýst um að kortleggja NGO’s/sjálfstæðar stofnanir á hverju svæði fyrir sig og mynda brýr á milli norðurlandanna og Rússlands
 • SPARK, Nordplus verkefni:  Þróunarverkefni með samstarfsaðilum frá Danmörku, Finnlandi og Eistlandi. Snýst um að þróa og útfæra leiðir til að styðja við og efla “cultural volunteers” (aðila sem starfa að menningarmálum í sjálfboðavinnu) í dreifðum byggðum. Verkefnið er unnið í samstarfi rannsóknasviðs og símenntunarsviðs.
 • CRISTAL, Erasmus verkefni:  
  Þróunarverkefni með samstarfsaðilum; Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskólinn á Akureyri, Lindberg & Lindbert Engineering AB í Svíþjóð og Azienda Agricola “DORA” á Ítalíu. Verkefnið snýst um að gera módel af samfélagi þar sem frumkvöðlamennt, tækninám, sjálfbærni og sköpun eru innleidd á öll skólastig með nýjum námsaðferðum. Í verkefninu heima í héraði eru einnig Norðurþing, Framhaldsskólinn á Húsavík og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga samstarfsaðilar og þátttakendur. Verkefnið fékk styrk til þriggja ára og lýkur á árinu 2018.  Verkefnið er unnið í samstarfi rannsóknasviðs og símenntunarsviðs.
 • Viðhorf íbúa í Mývatnssveit til þjónustu við aldraða: Könnun í samstarfi við Skútustaðahrepp er varðar ánægju íbúa með þá þjónustu sem er í boði og hvaða þjónustu þau myndu vilja sjá í sínu næsta nágrenni. Könnun lokið og niðurstöður birtar.
 • Byggðir og breytingar – rannsókn á atvinnuháttum íslenskra þéttbýlisstaða í fortíð, nútíð og framtíð: Heimildarannsókn á myndun og þróun atvinnuhátta í sjávarbyggðum á Íslandi 1900-2015. Horft sérstaklega til Húsavíkur og greining gerð á atvinnulífi, innviðum og breytingum. Vinnu lokið og skýrsla komin út prentun. Niðurstöður kynntar á félagsvísindaráðstefnu í HA í maí 2016 og á byggðaráðstefnu Byggðastofnunar á Breiðdalsvík í september 2016.
 • Sjálfbærniverkefni Landsvirkjunar. Verkefnið var sett á laggirnar til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Þeistareykjavirkjum og tengdar framkvæmdir/starfsemi á samfélag, umhverfi og efnahag á Norðausturlandi. Landsvirkjun hefur fengið til liðs við sig fulltrúa sveitarfélaga á svæðinu og rannsóknaraðila sem mynda saman stýrihóp sem fer með stjórn verkefnisins. Þekkingarnet Þingeyinga mun halda utan um vinnu verkefnisins og fylgja eftir ákvörðunum stýrihópsins. Sjálfbærniverkefnið er hliðstætt Sjálfbærniverkefni Landsvirkjunar og Alcoa á Austurlandi. Settir verða fram vísar eða mælikvarðar sem mæla sjálfbærni framkvæmda og starfsemi virkjunar á Þeistareykjum. Fylgst verður með þeim og fyrirtækinu gert viðvart þegar mælingar sýna að eitthvað hefur farið úrskeiðis. Vinna við verkefnið er hafin. Unnið er að undirbúningi vísa.
 • Söguverkefni Völsungs. Sumarverkefni sem unnið er fyrir Íþróttafélagið Völsung þar sem valdir Völsungar hafa verið teknir tali í þeim tilgangi að safna upplýsingum í tengslum við ritun sögu Völsungs. Stefnt er að útgáfu sögu Völsungs í tilefni af 100 ára afmæli félagsins árið 2027. Verkefninu er lokið og gögnum hefur verið skilað til Völsungs sem vinna mun úr þeim.
 • Ferðavenjur ferðamanna á Húsavík og í Mývatnssveit. Upplýsingaöflun meðal ferðamanna á Húsavík og í Mývatnssveit þar sem kannað er meðal annars hversu lengi þeir dvelja á staðnum, hvers vegna þeir koma og hvað þeir hafa fyrir stafni. Verkefninu er lokið.
 • Viðhorf foreldra til skólastefnunnar “einstaklingsmiðað nám”. Viðhorfskönnun sem lögð var fyrir foreldra nemenda í 8. bekk Borgarhólsskóla. Verkefnið er hluti af meistaraprófsverkefni. Gagnaöflun og úrvinnslu er lokið.
 • Könnun fyrir FSH – meðal nemenda og foreldra í 8-10 bekk grunnskóla í Þingeyjarsýslum. Verkefni lokið og skilað til FSH.
 • Þjónustusókn og samfélagsábyrgð. Könnun á meðal íbúa frá Bakkafirði að Jökulsá, og á Húsavík, er varðar ýmis samfélagsleg málefni og hvar helsta þjónusta er sótt. Verkefni lokið og skýrsla komin út
 • Mannfjöldaþróun 2015. Verkefni unnið í janúar/febrúar með mannfjöldaþróun í Þingeyjarsýslum. Verkefni lokið og skýrsla komin út
 • Söguslóð um Þórshöfn
  – 
  Samstarfsverkefni Menntasetursins á Þórshöfn og Langanesbyggðar. Verkefnið byggir á ljósmyndum sem safnað var saman af sumarnema árið 2011 – af húsum í þorpinu, sjávarútvegssögunni sem safnað var saman sumarið 2013 og frekari upplýsingum sem Gréta Bergrún á Þórshöfn hefur unnið að.
  Staða verkefnis: Útiskilti fóru upp í júlí 2014 – sögukortið sjálft er ennþá á vinnslustigi.

 

Húsavík - sími: 464 5100 | Þórshöfn - sími: 464 5142 | Mývatnssveit - sími 464-5130